Veldu námsgrein
Veldu aldursstig
Reykjavíkurborg
11. nóvember 2013 10:52

Nýtnivikan og Dagur íslenskrar tungu

Reykjavíkurborg tekur nú í annað skiptið þátt í nýtnivikunni, 16.-24. nóvember nk. Markmið vikunnar er að auka meðvitund almennings um úrgangsmál og draga úr sorpmyndun. Ólíkt mörgum öðrum verkefnum er ekki einblínt á sorpflokkun og endurvinnslu heldur er sjónum beint að betri nýtingu hluta, að gefa þeim nýtt líf eða lengja líftíma þeirra.

 

Nú í ár fellur Dagur íslenskrar tungu inn í nýtnivikuna og það felur í sér ýmis tækifæri fyrir skóla til að tengja þetta tvennt saman. Leik- og grunnskólar borgarinnar eru hvattir til að beina sjónum að endurnýtingu orða. Þ.e.a.s. hvernig gömul orð hafa öðlast nýja merkingu í tungumálinu okkar (s.s. skjár, sími…) og hvernig önnur eru vakin til lífsins (s.s. jarðepli, spónamatur…).

 

Þátttakendur eru beðnir um að vinna verkefnið myndrænt, t.d. með því að nemendur skrifi orð og orðskýringar á spjöld sem þeir eru svo ljósmyndaðir með. Myndirnar skal senda á netfangið nytnivikan@gmail.com en þeim er miðlað á fésbókarsíðu Reykjavíkurborgar.

Hægt er að senda myndir nú þegar til birtingar en birtingu lýkur 24. nóvember, við lok nýtnivikunnar.

 

Hér eru leiðbeiningar vegna verkefnis.

Og hér má finna spilið Nýtum og njótum sem þýtt og staðfært var í tilefni af nýtnivikunni 2012.

               

Velkomið er að leita nánari upplýsinga um verkefnið hjá verkefnisstjóra Náttúruskólans, natturuskoli@reykjavik.is. 

 

Verkefnið er þá í megindráttum þetta:

1) Rifja upp gömul orð sem hafa öðlast nýtt líf eða fengið nýja merkingu

2) Ræða og vinna með að vild…

3) Skrifa orð á spjöld og orðskýringar (þ.e. hvað orðið þýðir í dag)

4) Taka mynd af spjaldinu, á skemmtilegum stað eða í fangi nemenda

5) Senda okkur myndina á netfangið nytnivikan@gmail.com


Til baka


yfirlit frétta

 
Náttúruskóli Reykjavíkur, Borgartúni 10-12, 105 Reykjavík    -    natturuskoli@reykjavik.is    -    www.natturuskoli.is